Netöryggi er bæði samfélagslegs eðlis og tæknilegs eðlis. Við þurfum sterkar netöryggislausnir til þess að vernda innviði eins og spítala eða banka, en þar getur árás haft alvarlegar afleiðingar. Við erum orðin góð í að kenna og rannsaka tæknilegt netöryggi: dulkóðun, hvernig eigi að koma í veg fyrir DDoS árásir eða hvernig eigi að reka örugg netkerfi.
En, tæknin er ekki allt, heldur er það líka samfélagslegt. Þess vegna tel ég mikilvægt að að gera greinamun á samfélagslegu netöryggi og tæknilegu netöryggi.
Samfélagslegt netöryggi (e. social cybersecurity) er ný þverfagleg fræðigrein sem kannar samhengi samfélagsins og netöryggis. Er hér á við félagsleg tengsl, hvernig við lærum, hvernig við tryggjum persónulegt öryggi okkur á Internetinu, og svo lög og reglur sem lúta að netöryggi.
Tæknilegt netöryggi (e. technical cybersecurity) er á móti sú fræðigrein sem fjallar um allar tæknilegar hliðar netöryggis. Hér má nefna dulkóðun, öryggisuppfærslur, eldveggi o.fl.
Þegar búið er að útbýta tæknilausnunum til almennings og þegar öryggi kerfanna byggir á hegðun einstaklinga erum við komin með samfélagslegt netöryggi. Til dæmis er það að nota ekki sama lykilorðið á öllum stöðum mannlegt vandamál, en ekki tæknilegt vandamál.
Jafnframt er það mannleg áskorun að fylgja bestu öryggisreglum og sjá til þess að fyrirtæki og stofnanir nýti viðeigandi öryggislausnir til að tryggja öryggi sitt og almennings. Þannig eru lög og reglusetningar sem varða netöryggi einnig samfélagslegt netöryggi.
Tilgangurinn með því að aðskila samfélagslegt netöryggi frá tæknilegu netöryggi er til að skýra betur hlutverk samfélagsins í netöryggiskeðjunni. Tæknilegt netöryggi virkar eins vel og mannfólkið leyfir. Ef óprúttinn aðili kemst inn í kerfið með löglegum leiðum þá er það takmarkað sem tæknileg öryggisvarsla getur gert til að koma í veg fyrir árás.
Það er ekki endilega sérsvið tæknifólks að fræða eða kenna fólki, hvortheldur vinnufélögum eða vandamönnum, hvernig netöryggi virkar eða hvaða póstar eru vefveiðipóstar. Það eru ólíkir hæfileikar og menntun sem þarf við að tryggja samfélagslegt netöryggi heldur en við það að reka örugg netkerfi eða búa til örugg smáforrit.
Samfélagslegt netöryggi er leið til þess að skoða netöryggi út frá þörfum samfélagsins í dag og til framtíðar.